Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Þórðarson

(– – 1747)

Skálholtsráðsmaður.

Foreldrar: Þórður sýslumaður Steindórsson að Ingjaldshóli og f.k. hans Ragnhildur Þórólfsdóttir að Múla á Skálmarnesi, Einarssonar. Lærði í Skálholtsskóla og varð stúdent þaðan.

Var lengi skrifari Árna Magnússonar, meðan hann dvaldist hérlendis, ráðsmaður í Skálholti 1712–13 (átti þá mál nokkur við Gottrup lögmann) og síðar út alla byskupstíð Jóns Árnasonar, eða 1722–43, var og lengi lögréttumaður í Rangárþingi. Bjó að Háfi í Holtum og andaðist þar.

Kona (7. ágúst 1713): Kristín (líkl. f, um 1695) Tómasdóttir í Glerárskógum, Jónssonar.

Börn þeirra: Páll bryti í Skálholti, Tómas bl., Eyjólfur, Hafliði á Syðsta Bakka í Þykkvabæ, Sigurður, Vilborg s. k. síra Filippusar Gunnarssonar í Kálfholti, Guðrún átti Erlend að Sandhólaferju Árnason skálds í Haga í Holtum, Sigurðssonar, Vigdís átti Sigurð (bróður Erlends), Sigríður átti Halldór í Sogni í Ölfusi Gunnlaugsson að Þúfu, Andréssonar, Þórður, Elín (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.