Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Þórðarson

(23. apríl 1825–14. jan. 1884)

Prestur.

Launsonur Þórðar dómstjóra Jónassonar og Margrétar Stefánsdóttur prests í Sauðanesi, Einarssonar. F. í Sauðanesi.

Var þar með móðurföður sínum fram á 15. ár og lærði þar dönsku hjá síra Magnúsi Jónssyni, aðstoðarpresti hans. Fór þá til Reykjavíkur til föður síns (1840) og lærði hjá honum 1 vetur og síðan 1 vetur hjá síra Sigfúsi Jónssyni (síðast presti að Undornfelli). Varð óreglulegur nemandi í Bessastaðaskóla 1842, fullkominn 1843, varð stúdent úr Reykjavíkurskóla 1847, með 2. einkunn (61 st.). Var fyrst (2 ár) skrifari Gríms amtmanns Jónssonar, síðan stiftamtmannanna Rosenörns og Trampes. Fekk Lund 21. maí 1853, vígðist 29. s.m., Möðruvallaklaustursprestakall 9. júlí 1856, bjó að Þrastarhóli, fekk Reykholt 25. okt. 1872, í skiptum við síra Jóhann Kröyer og hélt til æviloka. Talinn kennimaður ágætur og ástsæll mjög. Líkræður eftir hann pr. Í útfm. síra Páls Jónssonar, Rv. 1856; Ólafs Ólafssonar og Ásgeirs Finnbogasonar, Rv. 1882.

Kona (1853): Margrét (d. 30. maí 1870, um fertugt) Ólafsdóttir læknis Thorarensens að Hofi.

Börn þeirra: Steinunn Margrét, d. 1870, 16 ára, Jónas Tryggvi dó í Reykjavíkurskóla 1872, 17 ára (Vitæ ord. 1853; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.