Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Þóroddsson (Thoroddi)

(1736–18. apr. 1797)

Foreldrar: Þóroddur heyrari Þórðarson á Þóroddsstöðum í Ólafsfirði og kona hans Herdís Illugadóttir prests að Auðkúlu, Þorlákssonar. Tekinn í Hólaskóla 1747, varð stúdent að vísu 20. dec. 1754 frá Stefáni rektor Björnssyni, en vegna Óóvildar með rektornum og síra Jóni officialis Magnússyni var það próf gert ógilt, og er Þórður var reyndur aftur af officialis 6. júní 1755, stóðst hann eigi prófið, var þá tekinn aftur í skólann og varð stúdent 26. apr. 1757, með góðum vitnisburði, varð s. á. djákn að Reynistaðarklaustri, fór utan 1765, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 29. júlí 1766, varð baccalaureus 5. ág. 1769, lagði stund á náttúrufræði, búfræði og hagfræði. Í Kh. 1771 var prentað rit eftir hann, „Einfaldir þankar um akuryrkju“, og var því útbýtt ókeypis hérlendis. Árin 1773–9 var hann í Svíaríki á kostnað stjórnarinnar að búnaðar- og náttúrufræðanámi, var þá t. d. um tíma lærisveinn grasfræðingsins Linnés, ferðaðist 1779–80 með Levetzow, síðar stiftamtmanni um landið. Var sú fyrirætlan stjórnarinnar, að hann yrði umsjónarmaður búnaðarmála landsins með 150 rd. árslaunum, en skamma stund naut hann þessa, enda leizt stjórninni ekki á tillögur hans eða framkvæmdir í þessum efnum, og fekk hann síðan eftirlaun, hafðist að síðustu mest við í Ólafsfirði og andaðist þar að Reykjum, ókv. og bl. Ferðaskýrslur hans eru í Lbs., tillögur um hefting foksands eru í þjóðskjalasafni; erindisbréf hans 29. júní 1786 er í JS. Lovsaml. f. Isl. V. (Þorv.Th. Landfrs. ITI; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.