Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Arnfinnur Sigurðsson

(um 1570–1653)

Prestur.

Foreldrar: Sigurður Arnfinnsson á Staðarfelli og f.k. hans Helga Bjarnadóttir (systir Hrólfs sterka). Hann er orðinn prestur 1595, og er hann þá í Ísafjarðarsýslu (líkl. í Ögurþingum), en um 1597–1604 á Prestbakka (Bitruþingum), síðan 1604–6 í Bæ á Rauðasandi, en 1606 fekk hann Stað í Hrútafirði, og þar var hann síðan til dauðadags. Bréf frá honum í AM. og Lbs. árið 1625 hefir að geyma ýmis tíðindi.

Kona: Þórdís (d. 1672, 94 ára) Guðmundsdóttir prests á Stað á Reykjanesi, Jónssonar.

Börn þeirra: Síra Einar á Stað í Hrútafirði, Sigurður að Kollsá í Hrútafirði, Tyrfingur að Kollsá, Vilhjálmur (Galdra-Vilki) sýslumaður í Strandasýslu, bjó á Þóroddsstöðum í Hrútafirði, Þóra f. k. síra Teits Einarssonar í Skálholtsvík (Bitruþingum), Ragnhildur kona Ólafs Nikulássonar að Kollbítsá í Hrútafirði, Helga heitin Bjarna Ámundasyni 1650, en heitorðið dæmt ógilt fyrir sakir hvinnsku Bjarna, og varð hún síðar kona Magnúsar Árnasonar að Fjarðarhorni í Hrútafirði (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.