Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Þorsteinsson

(24. febr. 1754–28. febr. 1819)

Prestur.

Foreldrar: Síra Þorsteinn Þórðarson í Hvammi í Hvammssveit og kona hans Margrét Pálmadóttir lögréttumanns á Breiðabólstað í Sökkólfsdal, Sigurðssonar. Lærði hjá föðurbróður sínum, síra Einari í Hvammi, tekinn í Skálholtsskóla 1771, varð stúdent 1775, með heldur góðum vitnisburði, varð síðan 1 ár skrifari Jóns sýslumanns Arnórssonar í Reykjarfirði, bjó því næst 10 ár í Ásgarði í Hvammssveit, vígðist 10. júní 1787 aðstoðarprestur síra Friðriks Guðmundssonar í Borgarþingum, bjó á Ferjubakka, virðist hafa legið við verðgangi vegna harðinda á útmánuðum 1792, varð s. á. aðstoðarprestur síra Sigurðar Jónssonar í Hítarnesi, fekk Hvamm í Norðurárdal 29. apr. 1797, lét þar af prestskap 24. júní 1818, andaðist í Dalsmynni, en þangað hafði hann flutzt vorið 1808, og hafði túnið í Hvammi þá um veturinn skemmzt mjög af skriðufalli og snjóflóði (fórst í því einn sonur hans). Var jafnan heilsuveill og mjög fátækur, enda þrotabú eftir hann.

Kona (8. okt. 1777): Guðbjörg (d. 9. febr. 1837, 84 ára) Jónsdóttir að Hvoli í Saurbæ, Jónssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Margrét óg. í Dalsmynni, Jón að Berserkjahrauni, Pálmi, Anna átti Jón Jónsson á Leiðólfsstöðum í Laxárdal, Ásmundur á Flóðatanga, Guðbjörg átti Tuma Magnússon á Háreksstöðum, Benedikt á Breiðabólstað í Sökkólfsdal, Þorbjörg átti Elías Magnússon (bróður Tuma), Þorsteinn í Dalsmynni, Jósep í Stóru Gröf, Þuríður (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.