Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Þorsteinsson

(23. sept. 1760–15. okt. 1846)

Prestur.

Foreldrar: Síra Þorsteinn Þórðarson á Stað í Súgandafirði og kona hans Kristín Þórðardóttir frá Veðrará í Önundarfirði. Var tekinn í Skálholtsskóla 1776, varð stúdent 20. apr. 1780, með góðum vitnisburði, var þá í ár hjá foreldrum sínum, síðan 2 ár í þjónustu Jóns sýslumanns Arnórssonar í Reykjarfirði, kenndi þá 1 vetur börnum í Holti í Önundarfirði, því næst aftur 1 ár hjá foreldrum sínum, fekk Stað á Snæfjallaströnd 21. júlí 1785, vígðist 9. okt. s. á., tók við 29. maí 1786, fekk Breiðavíkurþing 4. apr. 1796, Kvennabrekku 3. dec. 1804 (tók við þar 4. júní 1805), Ögurþing 13. okt. 1809, tók við því prestakalli vorið 1810, í skiptum við síra Teit Jónsson, lét þar af prestskap 1837, enda hafði hann verið blindur frá 1825 og haldið aðstoðarpresta.

Bjó fyrst að Skarði í Ögursveit, síðan á Eyri í Seyðisfirði, andaðist í Hvítanesi. Var góður raddmaður og heldur góður ræðumaður, hafði mikið yndi af sagnafróðleik og skrifaði upp margar fornsögur o. fl. (kvæðabók með hendi hans er í Lbs.), þýddi úr dönsku Felsenborgarsögur, Kona (13. júní 1787): Guðbjörg (f. um 1767, d. 10. mars 1841) Magnúsdóttir í Súðavík, Ólafssonar.

Börn þeirra: Þórdís átti síra Jón Sigurðsson á Söndum, Kristín átti Matthías Halldórsson að Dvergasteini í Seyðisfirði, síra Þorsteinn í Gufudal, Guðrún átti Karvel Jónsson í Súðavík, síra Magnús á Rafnseyri (Vitæ ord.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.