Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Vídalín (Þorkelsson)

(um 1661–14. jan. 1742)

Rektor, læknir,

Foreldrar: Síra Þorkell Arngrímsson í Görðum á Álptanesi og kona hans Margrét Þorsteinsdóttir prests í Holti undir Eyjafjöllum, Jónssonar. Varð stúdent úr Skálholtsskóla 1678, var síðan hjá síra Oddi Eyjólfssyni í Holti að fullkomna sig, fór utan 1680, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 4. sept. s.á., mun hafa orðið attestatus, en lagði stund á ýmsar fræðigreinir, einkum lækningar. Kom til landsins 1683. Var í þjónustu Heidemanns landfógeta 2 ár (1683–5). varð heyrari í Skálholti 1685, rektor þar 1688 (vann þar fyrstur manna rektorseið), lét af því starfi 1690, vegna frátafa við lækningar, fór þá austur í Lón og hafði umboð nokkurra konungsjarða, stundaði lækningar og kennslu.

Var talinn manna skarpastur, gáfumaður mikill, skáldmæltur á ísl. og latínu (sjá Lbs.), beztur læknir samlendra manna á sinni tíð, hefir samið lækningabók (sjá Lbs.). Pr. er latínukvæði eftir hann framan við orðabók Guðmundar Andréssonar, Kh. 1683). Hann var mjög vel að sér í náttúrufræði.

Ritgerð eftir hann (upphaflega samin á latínu) er pr. í Hamburgisches Magazin, 1754, útlögð af Páli Bjs. Vídalín („Abhandlung von den islándischen Eisbergen“). Var vínhneigður, og ágerðist það með aldri, átti og erfiðan fjárhag. Andaðist í Bræðratungu, ókv. Um hann eru sagnir (sjá Alm. þjóvinafélags 1932). Laundóttir hans (með Sigríði Lárentíusdóttur á Krossalandi, Guðmundssonar): Anna. Annað launbarn hans (með ráðskonu sinni Helgu Magnúsdóttur í Dal í Lóni, Oddssonar, en þar í Þórólfsdal eða Þórisdal bjó Þórður um tíma) og er það ekki nafngreint, en Helgu var drekkt á alþingi 19. júlí 1709 (sjá alþb. 1709, nr. 8) fyrir fæðing í dulsmáli (með Þórði). Barn var honum og kennt af Steinunni nokkurri, og sór hann fyrir það (Saga Ísl. V–VI; Þorv. Th. Landfrs.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.