Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Sveinbjarnarson

(4. sept. 1786–20. febr. 1856)

Dómstjóri

Foreldrar: Sveinbjörn Þórðarson á Hvítárvöllum og f.k. hans Halldóra Jónsdóttir smiðs í Bár, Jónssonar.

Lærði hjá síra Bjarna Ásgrímssyni á Melum, varð stúdent 1802 úr heimaskóla frá Geir byskupi Vídalín, var þá 2 ár á Melum, því næst 7 ár hjá föður sínum, varð skrifari Stefáns amtmanns Stephensens 1811, fór utan 1817 og var þá skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh., með 1. einkunn, tók annað lærdómspróf 1818, með 1. einkunn, lagapróf 13. júní 1820, með 1. einkunn í báðum prófum, en árið 1819 hafði hann fengið heiðursverðlaun háskólans fyrir ritgerð sögulegs efnis. Vann síðan í rentukammeri, fekk Árnesþing 16. maí 1822, bjó í Hjálmholti, varð fyrri yfirdómari í landsyfirdómi 18. apr. 1834, en dómstjóri þar 15. sept. 1836 og hélt því starfi til æviloka. Gegndi auk þess land- og bæjarfógetaembætti frá því um haustið 1834 til 24. febr. 1836 og aftur frá 25. maí 1836 til 31. júlí s. á., en stiftamtmannsembætti frá 4. febr. 1836 til 25. maí s. á., Aðalstofnandi búnaðarfélags suðuramts og formaður þess 1837 til æviloka. Varð r. af dbr. 10. júní 1841 og konferenzráð 8. júlí 1848. Átti sæti í embættismannanefnd 1839 og 1841. Var konungkjörinn alþm. 1845–55 og á þjóðfundinum, forseti alþingis 1847. Formaður landbúnaðar- og skattanefndar, sem sett var 23. apr. 1845. Bjó í Nesi við Seltjörn frá 1835 til 1851, átti síðan heima í Reykjavík.

Var búhöldur góður, mikilhæfur maður og fastlyndur og var prýðilega að sér. Sá um útgáfu og latneska þýðingu á Grágás, Kh. 1829; Járnsíðu, Kh. 1847; Fornyrði Jónsbókar eftir Pál Vídalín, Rv. 1846–54; ritstj. „Sunnanpósts“ 1835. Orkti talsvert, einkum erfiljóð og grafskriftir, og er sumt prentað sérstakt eða með útfararminningum (sjá og Lbs.; þar er og ritgerð eftir hann um landsins gagn og nauðsynjar).

Kona 1: Guðrún (d. 11. nóv. 1838) Oddsdóttir prests á Reynivöllum, Þorvarðssonar, ekkja Stefáns amtmanns Stephensens.

Börn þeirra Þórðar dóu ung.

Kona 2 (21. okt. 1840): Kirstín Katrín (f, 27. apr. 1813, d. 8. 8 jan. 1874), dóttir L. Knudsens verzlunarstjóra í Reykjavík; hafði hún áður átt launson með Edvarð kaupmanni Thomsen (er varð mágur hennar), og var það Lárus, er síðar varð dómstjóri og Þórður tók sér í sonarstað.

Börn þeirra, sem upp komust: Theodór læknir, Guðrún Láretta d. 19 ára (1861) óg. og bl., Halldóra Margrét átti Þórð verzlunarstjóra Gudjohnsen í Húsavík, Sveinbjörn guðfræðingur og tónskáld, Árnabjarni fór til Vesturheims, Aurora Didrika Ingibjörg átti Kristján póstafgreiðslumann Trampe, son Trampes stiftamtmanns (Ævisaga... samin af sjálfum honum, Rv. 1916; BB. Sýsl.; Sunnanfari V; Tímarit bmf. MI; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.