Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Steindórsson

(um 1630–1707)

Sýslumaður.

Foreldrar: Steindór sýslumaður Finnsson að Ingjaldshóli og kona hans Guðlaug Þórðardóttir, Einarssonar (prests á Staðastað, Marteinssonar). Skólagenginn (líkl, ekki stúdent), var síðan í Hollandi, sumir segja og Frakklandi, Danmörku og Englandi. En kominn til landsins eigi síðar en 1654. Varð lögréttumaður í Þórsnesþingi, var 1680 settur fyrir Snæfellsnessýslu og Stapaumboð, lét af þeim störfum 1688, var þó síðar settur sst., eftir lát Magnúsar lögmanns Jónssonar, og enn lögsagnari Magnúsar sýslumanns Björnssonar, síðast 1700.

Hann var fríður maður sýnum og manna bezt limaður, skartmaður mikill, óhófsamur og rausnsamur, hélt veizlur miklar og lét gesti sína þvo sér úr víni í stað vatns. Hýsti og stórmannlega býli sín. Gengu því af honum eignir, en lánstraust hafði hann gott, enda skilamaður, en varð að síðustu öreigi. Talinn að mörgu mikilmenni. Bjó að Fróðá 1666, en er kominn að Ingjaldshóli 1667, fluttist að Ormsbæ 1689 og er þar enn 1703, en andaðist á Eyri í Skutulsfirði.

Kona 1: Ragnhildur Þórólfsdóttir að Múla á Skálmarnesi, Einarssonar, ekkja síra Erlends Einarssonar í Hjarðarholti.

Börn þeirra: Síra Páll á Eyri í Skutulsfirði, Þórður Skálholtsráðsmaður, Þorkatla f.k, síra Guðmundar Jónssonar að Helgafelli, Erlendur, Sigurður ókv. og bl.

Kona 2: Guðrún (f. um 1664) Friðriksdóttir (og hafði hún áður verið vinnukona hans). Dóttir þeirra: Guðlaug átti Tómas Pálsson, Þorgilssonar. Launsonur Þórðar (með Guðrúnu Jónsdóttur að Heinabergi, Ketilssonar): Þórður fór vestur. Laundóttir Þórðar (með Helgu Kristjánsdóttur): Þorbjörg átti Jón lögréttumann Illugason að Munaðarhóli (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.