Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Jónsson

(um 1741–25. okt. 1814)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Halldórsson á Völlum og s. k. hans Guðfinna Jónsdóttir trésmiðs í Arnarnesi, Jónssonar. Tekinn í Hólaskóla 1759, stúdent 1764. Vígðist 17. nóv. 1765 aðstoðarprestur föður síns, fekk prestakallið að fullu 1780 og hélt til æviloka.

Frægur raddmaður og frábær að næmi.

Kona 1: Þuríður (d. 1783) Jónsdóttir prests að Kvíabekk, Sigurðssonar. Dóttir þeirra: Guðfinna átti Magnús bónda í Dölum, Illugason smiðs að Laugum, Þorbergssonar.

Kona 2 (24. sept. 1787). Ingibjörg (d. 1797) Jónsdóttir prests á Mel, Guðmundssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Elín átti Jón að Upphólum Jónsson (Arasonar prests að Tjörn, Þorleifssonar), Helga, Páll amtmaður Melsteð.

Kona 3 (1798): Elín Halldórsdóttir að Skógum í Reykjahverfi, Vigfússonar, ekkja Kolbeins nokkurs og síðan ekkja síra Þorsteins Hallgrímssonar í Stærra Árskógi.

Þau síra Þórður bl. (JH. Skól.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.