Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Jónsson

(1698–2. maí 1776)

Prestur.

Foreldrar: Jón lögréttumaður Jónsson að Laugardalshólum og kona hans Þórunn Hannesdóttir prests í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, Björnssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1710, stúdent 1718.

Átti deilur við sóknarprest sinn, síra Ólaf Jónsson í Miðdal, og varð fyrir sektum. Fekk amtmannsveiting fyrir Reykjadal 31. jan. 1724, en Jón byskup Árnason synjaði honum um vígslu. Fór utan 1726, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 16. okt. s. á., tók guðfræðapróf 22. júlí 1727, með 1. einkunn, fekk konungsveiting fyrir Reykjadal 1728, og bauð konungur byskupi jafnframt að vígja hann, og varð það úr 19. sept. s.á. Komst síðan í málaferli við sóknarmenn sína og var dæmdur frá embætti af byskupi og nokkurum prestum, en sýknaður í hæstarétti 9. júlí 1735, og hélt hann síðan Reykjadal, þótt misbrestir þættu á ráði hans, sagði þar af sér prestskap 12. júlí 1758, fór þá utan og var þar um hríð, en var 1762 sendur heim og skyldi fá 20 rd. í eftirlaun árlega, fór þá í Skálholt og andaðist þar, ókv. og bl.

Var maður ekki ógáfaður né illa að sér, en sérvitur, einrænn og hrokafullur (sjá Lbs.). Í skýrslum Harboes er hann talinn mjög minnisgóður, en algerlega dómgreindarlaus. Eftir hann eru (í Lbs.) biblíuskýringar.

Vera má, að eftir hann sé (sst.) þýðing á sögunni „Ammoratishringur“. Sagnir eru um hann (t.d. í „Fjallkonunni“, 4.–5. árg.). Kveðskapur er til eftir hann mjög sérvizkukenndur (HÞ, Guðfr.; Blanda TI; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.