Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Jónsson

(1672–21. ág. 1720)

Prestur.

Foreldrar: Jón Hólabyskup Vigfússon og kona hans Guðríður Þórðardóttir prests í Hítardal, Jónssonar.

Ólst upp frá því að hann var á 3. ári hjá föðurmóður sinni, tekinn í Skálholtsskóla 1683, stúdent 1686, með ágætum vitnisburði, var síðan 1 vetur að fullkomna sig hjá síra Oddi Eyjólfssyni í Holti undir Eyjafjöllum, fór utan 1688, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 20. sept. s.á. Hafði fengið vonarbréf 1687 fyrir Hítardal, að tilhlutan föður síns, en það varð að sjálfsögðu ónýtt. Kom snöggvast til landsins 1691.

Varð frægur af því, að hann fekk hrundið fyrir hæstarétti dómum, sem felldir höfðu verið á föður hans. Kom alfari til landsins 1693, vafalaust attestatus, og dvaldist um hríð hjá móður sinni, að Leirá. Fór enn utan 1697 og hugði á Skálholtsbyskupsdæmi, en svo réðst, að hann varð rektor í Skálholti 1698. Fekk vonarbréf fyrir Staðastað 1. febr. 1701, fluttist þá um vorið að Hjörsey, mun hafa vígzt í ágúst 1702 og hafði þá tekið við Staðastað, við uppgjöf síra Páls Ketilssonar, og hélt til æviloka, var og prófastur í Snæfellsnessýslu frá 1703 til dauðadags. Sókti að vísu 21. ág. 1710 um Hólabyskupsdæmi og hafði sterk meðmæli frá Möller amtmanni, en með því að hann fór ekki utan sjálfur, missti hann af því.

Hann átti, sem fleiri, deilur við Odd lögmann Sigurðsson. Var búhöldur góður og auðugur, en þó hjálpsamur, góður læknir og tók ekki fyrir lækningar sínar.

Hann var í röð fremstu presta, prýðilega að sér, jafnt í guðfræði, málfræði, fornfræði, lækningum, grasfræði, rími, og hefir samið ritgerðir í öllum þessum greinum, þótt líklega fæstar eða engar hafi varðveitzt. Var manna bezt að sér í söng og hljóðfæraslætti, enda raddmaður góður, skáldmæltur jafnt á íslenzku sem latínu (sjá Lbs.). Brot úr bréfabók hans er í JS. 319, 4to.

Kona (1. sept. 1700, konungsleyfi 18. apr. 1699, með því að þau voru systkinabörn): Margrét (f. um 1679, d. 6. okt. 1725) Sæmundsdóttir prests í Hítardal, Oddssonar, og var hún vellauðug.

Börn þeirra, sem upp komust: Jón alþingisskrifari, Sæmundur á Kjarlaksstöðum, Gísli stúdent síðast í Fagra Skógi, Katrín f. k. síra Vigfúsar Jónssonar í Hítardal, Salvör átti síra Halldór kirkjuprest Jónsson að Hólum, Þorbjörg átti síra Ásmund Jónsson á Breiðabólstað á Skógarströnd (HÞ.: JThorch. Pauc. Isl.; SGrBf.; o. fl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.