Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Jónsson

(13. ág. 1722–1. jan. 1786)

Prestur.

Foreldrar: Jón Magnússon að Stóra Núpi og 1. kona hans Sigríður Guðmundsdóttir á Auðólfsstöðum, Steingrímssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1741, missti skólavist fyrir barneignarbrot 1745, en hlaut að öðru leyti góðan vitnisburð frá öllum, sem að skólanum stóðu. Fekk uppreisn 3. mars 1747 og var tekinn aftur í skólann, stúdent 21. dec. s.á., fekk Hvalsnes 1748, vígðist 23. maí s. á., Stað í Grindavík 1755, Kálfafell 22. okt. 1773, tók við 2. júní 1774, og loks 12. júlí 1780 Háls í Hamarsfirði, í skiptum við síra Jón skáld Hjaltalín, og hélt til æviloka. Talinn af byskupi vel gefinn maður, en drykkfelldur í meira lagi og svo hjálpsamur við aðra, að hann gleymi sjálfum sér, enda skuldugur. Í móðuharðindunum missti hann allan kvikfénað sinn og kúgildi kirkjunnar og komst á verðgang, en fekk 1785 tillag til styrktar þurfandi prestum.

Kona: Ingibjörg Eiríksdóttir prests að Hrepphólum, Oddssonar, ekkja síra Helga Jónssonar á Stað í Grindavík; ekki komust upp börn þeirra, ef átt hafa. Launsonur síra Þórðar í skóla (með Arnbjörgu Einarsdóttur að Giljum í Hálsasveit, Grettissonar): Jón dó utanlands (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.