Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Gíslason

(um 1679–1727)

Prestur.

Foreldrar: Síra Gísli Finnbogason að Sandfelli og kona hans Guðrún Sigvaldadóttir. Tekinn í Skálholtsskóla, mun hafa orðið stúdent 1705, fekk Meðallandsþing 1707, vígðist 6. nóv. s.á., varð að láta af prestskap að fullu 1727 og var þá 30. maí ætlað tillag af prestsetrum, en andaðist samsumars.

Komst í barneignarmál 1711, en eftir dómi á prestastefnu á alþingi 13. júlí 1712, vann hann synjunareið og hélt embætti.

Bjó að Slýjum.

Kona: Katrín (d. 1746) Gunnarsdóttir lögréttumanns á Leiðvelli, Höskuldssonar.

Börn þeirra: Valgerður átti síra Guðlaug Þorgeirsson í Görðum, Hjalti í Haga í Holtum, Páll í Miðkrika 2 og Dufþekju, Þorsteinn á Strönd á Rangárvöllum (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.