Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Guðmundsson

(um 1524–8. apr. 1608)

Lögmaður.

Foreldrar: Guðmundur Erlendsson í Þingnesi og kona hans Ástríður, er verið hefir líklega dóttir Halldórs ábóta Tyrfingssonar að Helgafelli, og þar ólst Þórður upp og varð að síðustu ráðsmaður í klaustrinu. Er og talinn hafa verið sveinn Daða Guðmundssonar í Snóksdal.

Kemur fyrst við skjöl 1541. Árið 1560 er hann lögsagnari í Þverárþingi sunnan Hvítár, en orðinn sýslumaður þar 1561.

Hann hélt og Reykholt 1556–63 og Mela frá því um 1563 og lengi síðan. Varð lögmaður sunnan og austan 1570, sagði því starfi af sér 1606. Var búhöldur mikill, nokkuð harðdrægur og gerðist auðugur. Var á síðustu lögmannsárum fyrirsvarsmaður landsmanna við hirðstjóra og gegn veræzlunaránauð. Bjó á Grímsstöðum, í Reykholti, á Indriðastöðum, Melum, en síðast á Hvítárvöllum, og þar andaðist hann, hafði fengið þá jörð (og Heggsstaði) 9. maí 1591, með leyfi konungs, frá Skálholtsstól í skiptum fyrir Belgsholtskot í Melasveit og Hvítanes í Skilmannahreppi.

Kona: Jórunn Þórðardóttir prests í Hítardal, Einarssonar.

Börn þeirra: Gísli lögmaður, síra Einar á Melum, Guðmundur alþingisskrifari (d. 1600) í Deildartungu, Ragnhildur átti Vigfús sýslumann Jónsson á Kalastöðum, Ragnhildur (kann að hafa verið laungetin) átti Jón nokkurn. Laundóttir Þórðar: Guðlaug átti Sæmund Sighvatsson (BB. Sýsl.; Safn 11; PEÓI. Mm. 111; Saga Ísl. IV–V; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.