Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórður Gunnlaugsson

(1791 [1794, Bessastsk.]–13. febrúar 1837)

Prestur.

Foreldrar: Síra Gunnlaugur Þórðarson á Hallormsstöðum og f.k. hans Ólöf Högnadóttir að Stóra Sandfelli, Torfasonar. Lærði fyrst 3 vetur hjá síra Birni þá að Eiðum Vigfússyni, var síðan í vetur í Bessastaðaskóla 1811–12 (við lítinn orðstír), naut síðan í vetur tilsagnar Gísla Brynjólfssonar, síðar prests að Hólmum, og 2 vetur síra Guttorms Pálssonar í Vallanesi, varð stúdent 1816 úr heimaskóla frá Geir byskupi Vídalín. Vígðist 3. ágúst 1817 aðstoðarprestur síra Einars Björnssonar að Þingmúla, fekk Desjarmýri 14. febr. 1821. Þar átti hann illdeilur við Hjörleif sterka Árnason í Snotrunesi.

Fekk Eiða 1. nóv. 1830, Ás í Fellum 27. ág. 1831, í skiptum við síra Pétur Jónsson, fluttist þangað 1832 og hélt til æviloka.

Kona: Sigríður Hjörleifsdóttir prests á Hjaltastöðum, Þorsteinssonar.

Börn þeirra: Gunnlaugur stúdent, Bergljót, Elinborg (Bessastsk.; Vitæ ord.; Lbs. 48, fol.; SGrBf.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.