Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórhalli Magnússon

(14. dec. 1758–8. dec. 1816)

Prestur.

Foreldrar: Síra Magnús Þórhallason í Villingaholti og kona hans Guðrún Hákonardóttir í Haga, Magnússonar. Lærði fyrst hjá föður sínum, tekinn í Skálholtsskóla 1778, varð stúdent 5. maí 1782, með tæpum meðalvitnisburði um gáfur, en miklum lofsyrðum að öðru leyti, vígðist 9. júní 1783 aðstoðarprestur föður síns, og fekk Villingaholt 1784, við uppgjöf hans.

Sýndi hann þar mikinn dugnað 1785 í því að flytja bæ og kirkju undan sandágangi; var það mest þess vegna, að hann fekk Breiðabólstað í Fljótshlíð 14. maí 1790. Þangað fluttist hann vorið 1792. Í prestastefnu í héraði 1. nóv. 1797 var hann dæmdur frá embætti fyrir flangur við konu á næsta bæ, eftir kæru hennar, og vikið frá af byskupi 22. nóv. s. á. Skaut prestur dóminum fyrir prestastefnu á alþingi (Sigurður sýslumaður og skáld Pétursson samdi þá mjög skringilega vörn fyrir hann, og er hún varðveitt í Lbs.), og var honum þar 17. júlí 1798 dæmt prestakallið aftur, en skyldi lúka 40 rd. sekt til þurfandi prestekkna. Hélt hann síðan Breiðabólstað til æviloka. Geir byskup Vídalín fer fögrum orðum um gáfur hans og kennimannshæfileika í visitazíuskýrslu 9. mars 1799. Var gestrisinn og vinsæll, læknir góður, heldur lítill búhöldur. Í erfiljóðum þrennum um hann (í hár. í Lbs., og eru ein eftir síra Pál skálda Jónsson) er farið miklum lofsorðum um mannkosti hans.

Kona (6. júlí 1786). Ingibjörg (f. 10. júlí 1781, d. 28. nóv. 1827) Bjarnadóttir prests og magisters í Gaulverjabæ, Jónssonar.

Börn þeirra: Páll að Þórunúpi, Guðrún átti Sigurð Einarsson í Saurbæ í Holtum, Ólöf f.k. Þorgils Ingvarssonar að Núpi, Gísli dó 22 ára, Halldóra átti Ólaf Gestsson í Ey í Landeyjum, Margrét átti launbarn með Sigurði Tómassyni, síðar presti í Grímsey, og aftur annað launbarn (Vitæ ord.; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.