Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórdís Markúsdóttir

(1668– 1728)

. Húsfreyja á Stokkseyri, kunnust undir nafninu Stokkseyrar-Dísa. Foreldrar: Markús óðalsbóndi á Stokkseyri Bjarnason, lögréttumanns og Skálholtsráðsmanns á Stokkseyri, Sigurðssonar, og kona hans Guðrún Torfadóttir sýslumanns í Árnesþingi, Erlendssonar.

Þótti snemma einráð og sjálfstæð í framferði, giftist ung öldruðum ekkjumanni. Eftir lát manns síns bjó hún mörg ár á Stokkseyri, lenti þá í miklum málaferlum, einkum vegna fjárhalds Stokkseyrarkirkju, og hótaði Jón biskup Árnason henni jafnvel bannfæringu.

Mótstaða hennar gegn klerkum og hirðuleysi hennar um kirkjuna bakaði henni illt eftirmæli hjá fáfróðum almúga, enda var hún borin sökum um meðferð galdra. Mynduðust um hana Ýmsar þjóðsögur. Maður: Guðmundur Vest Jasonarson, síðast bóndi á Stokkseyri. Börn þeirra, er upp komust: Guðríður átti Jón Þorsteinsson í Traðarholti, Markús dó ókv., Guðrún átti Jón Sveinsson á Stokkseyri (BB. Sýsl.; Vigfús Guðmundsson: Saga Eyrarbakka I; Þjóðsögur Jóns Árnasonar) (G.J.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.