Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórarinn Jónsson

(23. dec. 1719–22. maí 1767)

Sýslumaður.

Foreldrar: Jón sýslumaður Jónsson í Grenivík og kona hans Guðrún Þórarinsdóttir, Vigfússonar. Hefir vafalaust numið í Hólaskóla, fór utan 1737, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 21. dec. s. á., kom til landsins árið eftir, var 5. dec. 1738 skipaður fulltrúi föður síns í Vaðlaþingi, fekk þá sýslu 1747, við uppgjöf hans (konungsveiting 20. febr. 1747), og hélt til æviloka. Hann hélt konungsjarðir í Þingeyjarþingi og Eyjafirði og stóljarðir um Vaðlaþing. Hann var kvaddur til að vera forráðamaður Hólastóls 21. ág. 1753, en fekk smeygt sér undan því. Bjó á Grund í Eyjafirði. Hann var maður útsjónarsamur og gerðist vel efnum búinn, en þó góðhjartaður. Talinn var hann skarpur maður. Kvenhollur þókti hann. Hann fekk vegna frændsemi konungsleyfi til hjónabands 19. febr. 1740 við Guðlaugu Magnúsdóttur prests á Grenjaðarstöðum, Markússonar, en eigi áttust þau, og var hún þó bústýra hans lengi, til 1753, en átti síðar síra Erlend Jónsson að Hrafnagili.

Kona (13. nóv. 1753): Sigríður yngri Stefánsdóttir prests á Höskuldsstöðum, Ólafssonar.

Þaðan er Thorarensensætt.

Börn þeirra: Stefán amtmaður, Vigfús sýslumaður að Hlíðarenda, síra Gísli í Odda, síra Friðrik á Breiðabólstað í Vesturhópi, Magnús klausturhaldari að Munkaþverá. Laundóttir Þórarins (með Guðnýju Gunnlaugsdóttur, Þorvaldssonar): Ragnheiður átti Jón aðstoðarlandfógeta Skúlason. Sigríður ekkja hans átti síðar Jón sýslumann Jakobsson að Espihóli (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.