Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórarinn Jónsson

(1702–19. dec. 1770)

Prestur.

Foreldrar: Síra Jón Guttormsson að Hólmum og kona hans Margrét Þórarinsdóttir prests að Hrafnagili, Jónssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1719, lét þar af námi 1723, mun síðan hafa lært hjá Þórði Þorkelssyni Vídalín og orðið stúdent frá honum líkl. 1725. Faðir hans vildi 1728 fá hann til aðstoðarprests, en Jón byskup Árnason vísaði honum frá vegna vanþekkingar, einkum í latneskum stýl, en bauð þó, að hann mætti vera í Skálholti næsta vetur, til þess að bæta þekking sína. Það boð var ekki þegið, og fór Þórarinn norður að Hólum og var vígður þar haustið 1728 (líklega 3. nóv.) aðstoðarprestur síra Björns Björnssonar í Hofsþingum, fór 1729 að Hólmum til föður síns og varð aðstoðarprestur hans. Fekk Þvottá 5. sept. 1732, Skorrastaði 1749, í skiptum við síra Eirík Bjarnason, og hélt til æviloka. Í skýrslum Harboes fær hann einna lélegastan vitnisburð allra presta, og lagði Harboe fyrir hann að ganga undir próf hjá byskupi.

Kona: Sesselja Bjarnadóttir prests að Ási, Einarssonar.

Börn þeirra: Jón lærði í heimaskóla, fór til Frakklands og varð skipstjóri, Bjarni fór utan með bróður sínum, og spurðist ekki til hans meir, Ingunn átti síra Þorstein Jónsson að Dvergasteini, Guðríður átti Ólaf lögr.mann Arngrímsson að Eiðum, Guðrún átti fyrr Árna Torfason í Grænanesi, síðar Davíð Jónsson í Hellisfirði, Guðný átti Björn Eiríksson á Löndum, Margrét átti Henrik Guðmundsson í Viðfirði, Katrín átti launson, Eyjólf Sigurðsson, sem oftast var á flakki um Breiðdal (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.