Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þórarinn Eiríksson

(– – 1659)

Prestur, fornritaþýðandi konungs.

Foreldrar: Eiríkur lögréttumaður Sigvaldason á Búlandi og f. k. hans Þórunn Sigurðardóttir prests á Breiðabólstað í Fljótshlíð, Einarssonar, Lærði í Skálholtsskóla, fór utan 1640, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 21. dec. s. á., var hérlendis árin 1643–6, en aftur ytra eftir það, er alkominn til landsins í það sinn 1649, fekk Heydali vorið 1651 að hálfu, en fullu 1652, við uppgjöf afabróður síns, síra Höskulds Einarssonar, komst árið eftir í ljótt barnsfaðernismál og sagði af sér prestakallinu 8. okt. 1654. Fór utan haustið 1655, kom aftur til landsins 1656, til þess að safna handritum fyrir konung; tók Brynjólfur byskup Sveinsson honum stygglega og ritaði bókaverði konungs 10. júlí 1656 um mál hans og að hann vildi ekki fá honum bækur né handrit. Varð samt þýðandi eða sagnaritari konungs. Eftir hann var pr. latnesk þýðing á sögu Hálfdans svarta („Historia de Haldano Nigro“), Kh. 1658.

Fátt mun annað liggja eftir "1 hann í handritum, enda talinn mjög Óóreglusamur. Drukknaði í borgarsíki í Kh., ókv. (Saga Ísl. V; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.