Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þuríður Einarsdóttir, formaður

(1777–13. nóv. 1863)

F. á Stéttum á Eyrarbakka.

Foreldrar: Einar bóndi þar Eiríksson í Hafliðakoti Jónssonar og kona hans Helga Bjarnadóttir á Kotleysu, Þorsteinssonar (og Salgerðar Bjarnad., móðursystur sr. Bjarna mag. Jónssonar í Gaulverjabæ). Einbeitt og snarráð, vel skynsöm, góðlynd og hjálpsöm. Hneigð mjög til útistarfa, eftirtökusöm og minnug. Fór fyrst á sjó 11 ára gömul og hafði þegar gott dráttarlag.

Varð háseti 16 ára, fyrst hjá bróður sínum (Bjarna), síðar í 19 ár (frá því að hún var 20 ára) hjá Jóni hreppstjóra Þórðarsyni að Móhúsum. Bjó stuttan tíma í Laugarnesi, fluttist þá að Kleppi, en skildi við þann mann, er hún hafði búið með og verið trúlofuð um hríð. Var í Gaulverjabæ fyrir og eftir. Tók síðan saman við Erlend nokkurn Þorvarðsson og átti með honum dóttur, Þórdísi, stóð það í 2 ár; Þórdís varð 5 ára. Þuríður átti síðan heima í Götu á Stokkseyri. Varð (1816) formaður á áttæringi þar, og víðar á Stokkseyri, hjá síra Jakobi Árnasyni í Gaulverjabæ, og var síðan formaður 25 vetrarvertíðir. Þetta var mjög óvenjulegt um konur, en hitt ekki tiltakanlega óvenjulegt, að þær væru hásetar, hvar sem var á landinu, a.m.k. fram á 19. öld. Þuríður giftist vinnumanni sínum, Jóni Egilssyni (21 árs) haustið 1820.

Hann fór frá henni næsta vor, en fullt skilnaðarleyfi fengu þau loks vorið 1829, er Jón ætlaði að kvænast annarri konu. Frá 1840–4T var Þuríður í Hafnarfirði. Bjó síðast í kofa hjá Skúmsstöðum á Eyrarbakka (Brynj.Jónsson: Ritsafn I, í umsjá Guðna Jónssonar, Rv. 1941).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.