Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorvarður Bárðarson

(um 1690–15. febr. 1767)

Prestur.

Foreldrar: Bárður Ögmundsson í Fagurey á Breiðafirði og kona hans Sigríður Þorvarðsdóttir.

Lærði fyrst hjá síra Guðmundi Jónssyni að Helgafelli; kom hann honum að Hólum til Steins byskups, mágs síns, var hann þar í skóla og varð stúdent 1715 og mun hafa verið efstur. Fekk Bergsstaði 1715, vígðist 17. maí s. á., en 21. apr. 1724 fekk hann vonarbréf fyrir Kvíabekk, fluttist þangað 1725, fekk Fell í Sléttahlíð 1754, í skiptum við síra Jón Sigurðsson, og hélt til æviloka. Í skýrslum Harboes er hann talinn gáfumaður, en drykkfelldur og hefði lofað betran. Var og óeirinn við drykk, en gæflyndur hverndagslega. Var og gestrisinn og hjálpsamur, búsæll fram eftir ævi. Nærfærinn í lækningum. Raddmaður mikill. Eftir hann er í Advocates' Library í Edinb. 21X7X12 (áður FM. 75, 4to.) náttúrufræðakver og er um grös, fugla og fiska. Þetta, að hann snuðraði í náttúrufræðum, hefir valdið því, að hann var talinn margvís og ekki vinsæll. Þetta handrit hafa menn ekki notað. Sagnir eru því og um hann (sjá Huld IT).

Kona 1: Ólöf Magnúsdóttir á Ljótsstöðum, Jónssonar.

Börn þeirra komust ekki upp.

Kona 2: Guðlaug Steingrímsdóttir að Auðnum í Ólafsfirði (hún varð úti í hríð 22. mars 1758).

Börn þeirra: Stígur (fór á sveit), Tobías dó á Ráeyri í Siglufirði 1785 „úr megrunarsótt (þ. e. hor), Davíð, Eufemía dó og úr hor og óþrifum að Vatnsenda 1785, þá ekkja Hallgríms nokkurs, Sigríður átti fyrr Erlend nokkurn í Hólakoti á Höfðaströnd, síðar Ísak Grundtvig.

Kona 3: Ingibjörg Magnúsdóttir að Sólheimum á Ásum, ekkja frá Stóra Dal; börn þeirra komust ekki upp.

Hún átti síðar bóndamann (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.