Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorvaldur Stefánsson

(um 1666–12. nóv. 1749)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Síra Stefán skáld Ólafsson í Vallanesi og kona hans Guðrún Þorvaldsdóttir að Auðbrekku, Ólafssonar. Lærði í Skálholtsskóla, fór utan 1690, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 25. okt. 1690 og mun hafa orðið attestatus. Fekk vonarbréf fyrir Hofi í Vopnafirði 19. mars 1692.

Vígðist prestur að Eiðum 1700 (líkl. 3. mars) og bjó í Gilsárteigi, varð aðstoðarprestur að Hofi í Vopnafirði 1710, tók þar við að fullu 1712, sagði af sér 1727, en afhenti ekki staðinn fyrr en 1730, fluttist þá að Syðri Vík í Vopnafirði, en að Ljósavatni 1743 og andaðist þar. Var vel skáldmæltur (sjá Lbs.), en fátt prentað eftir hann (sálmar í sálmabókum). Var heilsutæpur, þunglyndur annað veifið og að síðustu geðbilaður, enda var hjónaband hans erfitt.

Talinn eyðslusamur.

Kona (1695). Kristín (f. um 1660, d. um 1731) Björnsdóttir sýslumanns að Munkaþverá, Magnússonar. Dætur þeirra: Helga átti fyrr Pétur í Syðri Vík Björnsson (sýslumanns að Burstarfelli, Péturssonar), varð síðar þriðja kona síra Hjörleifs Þórðarsonar á Valþjófsstöðum, Guðrún átti Sören Jensen, er fyrr var undirkaupmaður í Vopnafirði, en síðar bjó að Ljósavatni (HÞ.; Saga Ísl. VI; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.