Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorvaldur Böðvarsson

(21. maí 1758–21. nóv. 1836)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Síra Böðvar Högnason í Holtaþingum og kona hans Gyríður Þorvaldsdóttir. F. að Mosfelli í Mosfellssveit. Lærði hjá föður sínum og síra Þorleifi Bjarnasyni í Reykholti, tekinn í Skálholtsskóla 1772, varð stúdent 1774, var síðan hjá foreldrum sínum og fyrirvinna móður sinnar, fluttist 1781 með henni að Breiðabólstað í Fljótshlíð, vígðist 26. jan. 1783 aðstoðarprestur síra Stefáns, föðurbróður síns, þar, og bjó á Flókastöðum.

Missti prestsréttindi með dómi 1788 fyrir hórdómsbrot. Var settur forstöðumaður Thorchilliibarnaskóla á Hausastöðum 1792 og hélt því starfi til 1804.

Fekk uppreisn 1803 (eftir að umsókn hans um hana hafði verið synjað tvívegis áður). Settur 9. maí 1804 prestur að Reynivöllum, fekk það prestakall að veitingu 3. dec. s.á. Snjóflóð féll á túnið 18. mars 1808 og skemmdi það mjög. Fékk Holt í Önundarfirði 20. júlí 1810, varð prófastur í Vestur-Ísafjarðarsýslu 8. apr. 1817. Fekk Mela 30. júní 1821, Holt undir Eyjafjöllum 1. nóv. 1826, fluttist þangað 1827 og hélt til æviloka. Var gáfumaður, vel að sér og kenndi mörgum skólalærdóm, kennimaður góður og skáldmæltur. Eftir hann er pr.: Chr. Bastholm: Hugleiðingar, Leirárg. 1800; C. F. Gellert: Útleggingartilraun, Leirárg. 1800; erfiljóð og útfm. (t. d. Ragnheiðar Schevings, Viðey 1827); æviágrip sjálfs hans (í Fjölni). Í Leirárgarðasálmabók eru eftir hann 61 sálmur, í sálmabók 1871 og síðan 50, en 7 í sálmabók þeirri, er gilti frá 1886. Í handritum í Lbs. eru og varðveitt eftir hann kvæði, sálmar og ræður.

Kona 1 (stiftamtmannsleyfi vegna tvímenningsfrændsemi 11. okt. 1780): Rannveig (d. 29. dec. 1785, 23 ára) Stefánsdóttir prests á Breiðabólstað, Högnasonar.

Börn þeirra komust ekki upp.

Kona 2 (16. júní 1786): Guðrún (d. 14. jan. 1804) Einarsdóttir lögréttumanns í Þrándarholti, Hafliðasonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Síra Böðvar á Mel, Rannveig átti Jón Jónsson í Framnesi, Gyríður átti síra Pétur Stephensen á Ólafsvöllum og Görðum, Kristín átti fyrr síra Pál Ólafsson í Guttormshaga, síðar Pétur Einarsson í Stafholtsey.

Kona 3 (20. júlí 1804): Kristín (f. 1780, d. 22. júlí 1843) Björnsdóttir prests í Bólstaðarhlíð, Jónssonar,

Börn þeirra, sem upp komust: Síra Björn í Holti undir Eyjafjöllum, síra Ólafur í Viðvík, Ingibjörg átti Björn Sigurðsson í Belgsholti, síra Stefán í Stafholti, Guðrún átti síra Stefán Stephensen á Reynivöllum, Hólmfríður átti Jón alþm. og ritstjóra Guðmundsson, Kristín átti síra Jón Hjartarson á Gilsbakka, Sigríður f. k. Ásgeirs bókbindara Finnbogasonar, Helga átti Ara á Flugumýri Arason (læknis, Arasonar), Þuríður átti fyrr Jónas söðlasmið Benediktsson í Belgsholti, varð síðar miðkona síra Jakobs Finnbogasonar í Steinnesi. Hórsonur síra Þorvalds (með Margréti Arnoddsdóttur): Guðmundur á Klasbarða (Útfm., Kh. 1837; Vitæ ord.; Fjölnir Ill; HÞ.. SGrBf.; auk þess ýmis munnmæli í ritinu: Frá yztu nesjum eftir Gils Guðmundsson).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.