Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorsteinn Þórðarson

(– – 15. dec. 1700)

Foreldrar: Síra Þórður Jónsson í Hítardal og kona hans Helga Árnadóttir lögmanns, Oddssonar. Lærði í Skálholtsskóla (var þar veturinn 1669–"70). Var hinn göfugasti maður, vildi engin völd eða lén þiggja, þótt kost ætti.

Talin er í skrá einni þýðing guðsorðabókar eftir hann úr latínu, en mun ekki hafa varðveitzt, og ekkert eftir hann nema sendibréf eitt meðal Vatnshornsbréfa í þjóðskjalasafni. Bjó fyrst með móður sinni í Hjörsey, að Hrafnabjörgum í Hörðudal 1678–82, en síðan að Skarði á Skarðsströnd til æviloka.

Kona (7. sept. 1675). Arnfríður (f. 1648, d. 29. ág. 1726) Eggertsdóttir sýslumanns hins ríka að Skarði, Björnssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Eggert (dó í Skálholtsskóla), Elín átti Bjarna sýslumann ríka Pétursson að Skarði, Ragnheiður átti Orm sýslumann Daðason í Fagradal, Sigríður óg., bjó lengi í Hval(– – gröfum, Þrúður f.k. Brynjólfs sýslumanns 7horlaciuss að Hlíðarenda (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.