Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorsteinn Þórðarson

(24. júní 1791–20. febr. 1840)

Prestur.

Foreldrar: Síra Þórður Þorsteinsson síðast í Ögurþingum og kona hans Guðbjörg Magnúsdóttir í Súðavík, Ólafssonar, F. að Snæfjöllum. Lærði fyrst hjá föður sínum, síðan hjá mági sínum Jóni Sigurðssyni, síðar presti á Söndum, varð stúdent úr heimaskóla frá Geir byskupi Vídalín 1815. Vígðist 12. júlí 1818 aðstoðarprestur föður síns, bjó fyrst í Tröð, síðar Strandseljum, fekk Stað á Snæfjallaströnd 27. maí 1822, Gufudal 20. okt. 1834, fluttist þangað 1835 og hélt til æviloka.

Sæmilegur kennimaður, röskur starfsmaður og viðfelldinn.

Kona hans (25. ágúst 1815): Rannveig (f. 16. maí 1789, d. 14. ág. 1843) Sveinsdóttir á Kirkjubóli í Skutulsfirði, Sigurðssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Þórður í Djúpa Dal í Gufudalssveit, Þorsteinn eldri veræzlunarstjóri, síðast bóndi í Æðey (nefndi sig Thorsteinsson, og svo gera niðjar hans), Ólöf átti Arnfinn Jónsson í Gröf í Þorskafirði, Þórdís átti Eirík Guðmundsson í Alviðru í Dýrafirði, Jón að Hesti í Hestfirði, fór til Vesturheims, Guðbjörg átti Guðmund Björnsson í Kálfadal, Ólína Kristín átti fyrst Magnús Jónsson á Bakka á Langadalsströnd, en síðar Guðmund Jónsson í Stóra Laugardal, Ólafur Helgi í Galtargjá, Guðrún átti Árna Bjarnason að Kvígendisfelli, Sölvi (Thorsteinsson) skipstjóri og hafnsögumaður á Ísafirði, Rannveig átti Halldór í Gautsdal Bjarnason (prests í Garpsdal, Eggertssonar), Þorsteinn yngri (Thorsteinsson) kaupmaður á Ísafirði, alþm. Ísf., Valgerður átti Bjarna Björnsson frá Kletti, Arnfinnssonar (Vitæ ord.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.