Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorsteinn Pétursson

(25. mars 1710–2. jan. 1785)

Prestur.

Foreldrar: Pétur hreppstjóri Guðmundsson að Húki í Miðfirði og f.k. hans Halldóra Ólafsdóttir að Bjargií Miðfirði, Eiríkssonar (að Núpi, Jónssonar). Tekinn í Skálholtsskóla 1729, varð stúdent 1734, vígðist 7. nóv. s. á. aðstoðarprestur síra Orms Bjarnasonar á Mel, varð að fyrirlagi Harboes aðstoðarprófastur hans 1741, einnig að fyrirlagi sama látinn prófa stúdentsefni í Hólaskóla 1745, fekk Staðarbakka 8. okt. 1744, fluttist þangað 1746, sagði þar af sér prestskap 1776, en dvaldist þar til æviloka. Varð að fullu prófastur í Húnavatnsþingi 2. febr. 1747, sagði af sér því starfi 1767. Var hinn mesti merkisprestur (þó í heittrúnaðarstefnu), og árvakur, lærður og víðlesinn. Iðjumaður mikill við ritstörf, Hið helzta, sem varðveitt er eftir hann í handritum í Lbs.: Ævisaga sjálfs hans mikil (nú pr., Rv. 1947, að umsjá Haralds bókavarðar Sigurðssonar), og önnur minni, Lagagripla Íslendinga, Undirvísan um sagnalestur, Ágrip um Íslands afhrapa, Norræn goðafræði (brot), Byskupaannáll og um lærða menn, Ichnographia (þ. e. Iconographia?) historiæ Islandicæ, Lærdómssaga, Manducus eða Leikafæla, Athugas. við Eddu, saga af Álfa-Árna, þýðing á Dimna, þ.e. „Dæmisögubók þeirra gömlu spekinga af slekti heimsins“. Var og hagmæltur.

Kona (1736): Guðrún (d. 24. apr. 1773) Teitsdóttir lögréttumanns að Núpi í Miðfirði, Eiríkssonar, og voru þau bræðrabörn.

Börn áttu þau tvö, sem eigi komust upp (HÞ.; SGrBf.; Saga Ísl. VI; Ævisaga Jóns Skálholtsrektors Þorkelssonar).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.