Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorsteinn Oddsson

(1778–22. mars 1809)

Djákn, amtskrifari.

Foreldrar: Oddur smiður Oddsson í Geldingaholti og kona hans Ragnheiður Þorsteinsdóttir prests að Vesturhópshólum, Eiríkssonar. Tekinn í Hólaskóla 1795, varð stúdent 28. maí 1800, með góðum vitnisburði. Varð 1801 skrifari Stefáns amtmanns Þórarinssonar, fekk 18. júní 1802 uppreisn fyrir barngetnað, og varð 10. nóv. s. á. djákn að Möðruvallaklaustri; fylgdu þessu sterk meðmæli amtmanns. Var gáfumaður og skáldmæltur (sjá Lbs., og eru þar eftir hann rímur af Fástus og Ermená). Ókv.

Launbörn: Guðrún, f. skömmu eftir stúdentspróf (með Guðrúnu Þorkelsdóttur úr Ólafsfirði, Styrbjarnarsonar), Þorsteinn 1804 (með Sigríði Ásmundsdóttur), Oddný 1807 (með Mörtu Arnfinnsdóttur að Miðhúsum í Eyjafirði, Árnasonar). Fyrir 2 hin síðari barneignarbrot hefir hann ekki fengið uppreisn, svo að vart verði (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.