Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorsteinn Magnússon

(um 1570–8. júní 1655)

Sýslumaður.

Foreldrar: Magnús Árnason í Stóra Dal (Djúpa Dal) í Eyjafirði og kona hans Þuríður, ættleidd laundóttir síra Sigurðar Jónssonar á Grenjaðarstöðum.

Talið er, að hann hafi lært utanlands. Hann er nefndur 6. júlí 1578 í afsali Þórunnar á Grund á arfi eftir síra Sigurð, bróður sinn, og setur hún þar þann skilmála, að Þorsteinn fái 30 hundr. meira en hver bræðra hans, enda mun hann hafa borið nafn Þorsteins á Grund, manns hennar. Kemur við skjal í Þingeyjarþingi 1599, og er enn nyrðra 1601. Fekk hálft Þykkvabæjarklaustur 1612, en allt 1624, sleppti því 1653, hafði lögsögn í Árnesþingi 1633–4 í umboði Vigfúsar Gíslasonar, hélt Skaftafellsþing (með Þorleifi Magnússyni) 1636–52 (mun þá hafa látið af sýslustörfum, við lát Þorleifs). Talinn ágætur maður, þótt héraðsríkur væri og kvenhollur. Hygginn maður og talinn lögspakasti maður á sinni tíð; var t.d. einn fulltrúa Íslendinga í Kh. vegna kaupsetningar 1619. Hefir samið ýmsar lögfræðiritgerðir (í handritum í Lbs.: Erfðatal, Getsakir, Kristileg áminning, Lagagreinir óljósar, Memorial um stefnur, Skiptiarfur og samarfur, Skýringar á þingfararbálki, sjá og AM.), hafði og bréfagerðir um slík efni við Vigfús Gíslason, Guðmund Hákonarson, Jón lögmann Sigurðsson o. fl. (AM.); gerði tillögur um breytingar á lögbókinni og samdi skarpan dóm („Kristileg áminning“) um alþingisdóma, er honum þóktu ekki réttir. Eftir hann hefir verið ættbálkur (sjá Ketil prest Jörundsson) og útlendur sagnatíningur (í AM.).

Eftir hann er pr. (Safn IV) ritgerð um Kötluhlaup 1625.

Bjó lengstum að Þykkvabæjarklaustri, en um tíma (nokkuru eftir Kötluhlaupið) á Ketilsstöðum í Mýrdal.

Kona 1 (1605). Guðríður yngri (d. 12. mars 1613) Árnadóttir prests í Holti undir Eyjafjöllum, Gíslasonar.

Börn þeirra: Einar sýslumaður að Felli, Hákon sýslumaður í Þykkvabæ, Magnús lögréttumaður í Árbæ, Vilborg átti Magnús sýslumann Bjarnason.

Kona 2 (1614): Ásdís Vigfúsdóttir sýslumanns á Kalastöðum, Jónssonar; hún dó af barnsförum (þau bl.).

Kona 3: Vigdís Ólafsdóttir prests og skálds á Söndum, Jónssonar.

Börn þeirra: Árni, Guðrún átti Einar Stefánsson, Einarssonar. Laundætur Þorsteins sýslumanns: Guðrún átti Vigfús lögréttumann á Herjólfsstöðum Jónsson (prests í Kálfholti, Stefánssonar), Guðrún (önnur) átti Guðna lrm. að Tungufelli Jónsson (BB. Sýsl.; PEÓI. Mm.; Saga Ísl. V; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.