Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorsteinn Magnússon

(2. febr. 1714–20. júní 1785)

Sýslumaður.

Foreldrar: Magnús lögsagnari Björnsson að Espihóli og k. h. Sigríður eldri Jónsdóttir Hólabyskups, Vigfússonar.

Lærði í Hólaskóla, varð stúdent 1733 eða 1734, fór utan 1735, en komst ekki lengra en til Noregs og var þar veturinn 1735–6, fekk þar bólu, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 31. júlí 1736, tók lagapróf (fyrstur Íslendinga) 10. maí 1738, með 2. einkunn, kom til landsins 1739, varð 1740 fulltrúi hjá Lafrenz amtmanni, fekk Rangárþing 25. febr. 1743 og hélt til æviloka, en hafði tengdason sinn að umboðsmanni frá 1768. Hann mun hafa verið gott yfirvald, féfastur, en þó grandvar, búhöldur mikill og auðugur, Er stundum orðheppinn og gamansamur í bréfum sínum. Bjó 1744– 7 á Skammbeinsstöðum, en síðan að Móeiðarhvoli til æviloka.

Kona (1743, konungsleyfi vegna þremenningsfrændsemi 4. nóv. 1740): Valgerður (d. 26. apr. 1785, 78 ára) Bjarnadóttir ríka að Skarði á Skarðsströnd, Péturssonar. Af börnum þeirra komst einungis upp: Sigríður átti Jón sýslumann Jónsson síðast að Móeiðarhvoli (BB. Sýsl.; Tímarit bmf. III; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.