Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorsteinn Ketilsson

(1688–25. okt. 1754)

Prestur.

Foreldrar: Síra Ketill Eiríksson á Svalbarði og kona hans Kristrún Þorsteinsdóttir prests að Eiðum, Jónssonar. Ólst upp hjá móðurföður sínum og lærði fyrst hjá bræðrum sínum og síra Ólafi Stefánssyni í Vallanesi, fór 1706 í þjónustu Páls lögmanns Vídalíns, en í Hólaskóla 1708, varð stúdent 25. mars 1709, fór þá aftur í þjónustu Páls lögmanns, en í Skálholt 1713, vígðist kirkjuprestur þar 5. nóv. 1714, fekk Hrafnagil 17. okt. 1716 og hélt til æviloka. Var prófastur í Vaðlaþingi 1723–51. Hann var ræðumaður ágætur, mikils metinn, og lagði Harboe til 1742, að hann yrði Hólabyskup, taldi hann fremstan kennimanna byskupsdæmisins, þótt aðrir væru þar honum lærðari. Var skáldmæltur (sjá Lbs.; þar er ævikvæði hans í mörgum handritum; vikusálmar hans eru pr. í „Daglegu kvöld- og morgunoffri“ að Hólum 1780, Viðey 1837). Pr. er þýðing hans, Þess svenska Gustav Landkrons og þess engelska Bertholds fábreytilegir Robinsons, Hól. 1756.

Guðsorðabókaþýðingar hans nokkurar eru í handritum í Lbs. (ekki er nú kunn þýðing á Bunyans Pilgrims progress, sem honum er eignuð). Annáll (Hrafnagilsannáll) er eftir hann.

Kona 1 (1718): Ingibjörg (f. 1676, d. 16. sept. 1746) Oddsdóttir klausturhaldara digra á Reynistað, Jónssonar; þau bl.

Kona 2 (1747); Dómhildur (d. 1805, 88 ára) Eiríksdóttir prests í Saurbæ, Þorsteinssonar. Fyrsta barn þeirra var borið innan 5 mánaða eftir hjónabandið; fekk hann uppgjöf á þeirri yfirsjón sinni 25. apr. 1749, sem ekkert hefði í skorizt. Dætur þeirra, sem upp komust: Ingibjörg f. k. síra Sæmundar Þorsteinssonar í Garpsdal, Helga átti Gísla Hallgrímsson í Kristnesi, Kristrún fyrst s.k. Símonar hreppstjóra Bechs á Bakka í Öxnadal, síðan s.k. Erlends klausturhaldara að Munkaþverá Hjálmarssonar.

Dómhildur ekkja síra Þorsteins átti síðar síra Jón Sigurðsson að Kvíabekk (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.