Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorsteinn Jónsson

(1749–11. febr. 1828)

Bóndi, stúdent.

Foreldrar: Jón gamli Jónsson að Ási í Kelduhverfi og miðkona hans Ása Guðmundsdóttir. Tekinn í Hólaskóla 1767, stúdent 1772. Var að Reykjum í Reykjahverfi 1778, á Helgastöðum 1779–81, bjó síðan að Litlu Laugum og hafði þá umboð Reykjadalsjarða, keypti Reykjahlíð (o. fl. jarðir) 1792, fluttist þangað 1793 og bjó þar til æviloka. Var mjög illa kynntur, átti deilur við ýmsa, illlyndur og ágjarn.

Kona 1 (1779): Hólmfríður (f. 7. ág. 1756, d. 25. mars 1835) Jónsdóttir prests á Helgastöðum, Jónssonar, vel gefin kona og skáldmælt; þau slitu samvistir 1781, vegna illrar viðbúðar hans, og fekk hún konungsúrskurð til fulls skilnaðar 24. júní 1791).

Sonur þeirra: Síra Jón í Reykjahlíð (síðast í Kirkjubæ í Tungu).

Kona 2: Guðný Ólafsdóttir á Hjalla í Reykjadal, Helgasonar.

Dóttir þeirra: Kristín átti Sigurð Jónsson á Grímsstöðum við Mývatn (HÞ; Jón Jónsson: Reykjahlíðarættin, Rv. 1939).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.