Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorsteinn Jónsson

(1737–10. ág. 1800)

Prestur, skáld.

Foreldrar: Síra Jón Guðmundsson í Reykjadal og kona hans Guðlaug Jónsdóttir prests í Villingaholti, Gíslasonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1754, varð stúdent 19. apr. 1758. Hann var borinn barnsfaðerni 1760 af Steinunni Runólfsdóttur að Hvoli í Mýrdal (sjá um það mál Ævis. síra Jóns Steingrímssonar), en sór fyrir, og eiðurinn þókti grunsamlegur. Varð því að sækja um uppreisn og fekk hana 10. okt. 1763, með því skilyrði, að hann mætti ekki verða prestur í Skaftafellsþingi. Fekk Mjóafjörð 1766, vígðist 20. maí s. á., fekk 1769 Dvergastein (hafði gegnt þar prestsstörfum frá 1768) og gegndi síðan Mjóafirði einnig til 1780, enda hafði hann árinu fyrir verið kærður af sóknarmönnum fyrir vanrækslu þar og því sagt Mjóafirði lausum 27. júlí 1779. Var kærður 1794 fyrir afskipti af barneign giftrar konu fyrir 7 árum, en slapp nokkurn veginn hneisulaust eftir rannsókn prófasts 1796. Sagði af sér prestskap að Dvergasteini 18. júlí 1795, vegna fátæktar, var þar til vors 1796, fluttist þá í húsmennsku að Firði í Mjóafirði, og andaðist þar. Var maður blendinn, hirðulítill og drykkfelldur, en vel gefinn og skáldmæltur, hefir orkt bæði andleg kvæði, en einkum lausavísur, sumar kersknar, og gamankvæði (sjá Lbs.), og urðu sum vinsæl (Roðhattskvæði, Píkuraun, Grýlukvæði o. fl.) Pr. er eftir hann í Ísl. gátum, skemmt. o.s.frv. III, Rímur eru eftir hann: r. af Blómsturvallaköppum, pr. í Kh. 1834, en í handritum í Lbs. eru r. af Kiða-Þorbirni.

Kona (1768): Ingunn (d. 3. okt. 1804, 63 ára) Þórarinsdóttir prests á Skorrastöðum, Jónssonar; þau bl. (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.