Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorsteinn (Brynjólfur) Arnljótsson

(7. febr. 1865–26. nóv. 1921)

. Kaupmaður. Foreldrar: Síra Arnljótur Ólafsson á Bægisá, síðar á Sauðanesi, og kona hans Hólmfríður Þorsteinsdóttir prests á Hálsi í Fnjóskadal, Pálssonar. Átti við vanheilsu að búa frá æsku. Var til lækninga og við nám í Kh. 1880 – 81 og við nám í Rv. 1881–82.

Stundaði nokkru síðar barnakennslu á Akureyri um hríð og var ritstjóri Fróða um tíma 1886, en sjúkleiki hans ágerðist, og varð hann lamaður á höndum og fótum og algerlega ósjálfbjarga líkamlega til æviloka. Stofnaði verzlun á Þórshöfn 1905 og rak hana til æviloka; verzlaði m.a. með hljóðfæri og hafði viðskipti um allt land. Rak einnig útgerð og búskap. Mikilhæfur maður, listhneigður og vel menntur, þrekmenni í lund, hagsýnn og stjórnsamur. Ókv., en átti tvö börn: (með Rósu Friðbjarnardóttur): Fanney átti Pétur Magnússon í Krossanesi í Skagafirði, (með Margréti Jónsdóttur frá Bægistöðum): Egill var um skeið tollþjónn í Rv. (Sig. Guðmundsson: Heiðnar hugvekjur og mannaminni, Ak. 1946; kirkjubækur).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.