Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Brynjólfur Snorrason

(13. okt. 1820–29. júní 1850)

Fræðimaður.

Foreldrar: Síra Snorri Brynjólfsson í Heydölum og kona hans Þóra Björnsdóttir.

F. í Heydölum. Lærði undir skóla hjá föður sínum, tekinn í Bessastaðaskóla 1837, Stúdent þaðan 6. júní 1842, með ágætum vitnisburði (95 st.). Lauk sama haust aðgönguprófi í háskólanum í Kh., með 1. einkunn, en tók annað lærdómspróf einnig með 1. einkunn 24. apríl s. á. og 2. nóv. 1843. Lagði í fyrstu stund á guðfræði, en gerðist 4. nóv. 1843 aðstoðarmaður R. Cleasbys til að vinna að orðabók íslenzk-enskri, sem við hann er kennd, gat þó litlu sinnt vegna brjóstveiki og varð að fara heim sumarið 1845 til heilsubótar, en fór utan aftur um haustið, tók síðan að sinna fornfræði, varð styrkþegi Árnasjóðs 13. júlí 1848 og í leyndarskjalasafni Dana 6. júní 1849; vann að prentun fornrita, en einkum þýðingum Íslendingasagna á dönsku (með skáldinu Kr. Arentzen): „Sagaer“, Kh. 1849–50; „Nordiske Myther“, Kh. 1849; „Oldnordiske Sagn“, Kh. 1849. Grein um Völuspá er eftir hann í Ann. f. nord. Oldkh.

Var í ritnefnd „Nýrra félagsrita“ 1847 og 1850. Hefir hann verið starfsmaður mikill, þótt heilsuveill væri. Var maður vel látinn meðal félaga sinna. Andaðist úr brjóstveiki, ókv. og bl. (Skýrslur; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.