Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þormóður Torfason

(27. maí 1636–31. jan. 1719)

Sagnaritari,

Foreldrar: Torfi sýslumaður Erlendsson síðast í Þorkelsgerði og kona hans Þórdís Bergsveinsdóttir prests að Útskálum, Einarssonar. Tekinn í Skálholtsskóla 10 ára gamall, varð stúdent 1654, fór utan s. á., hraktist til Amsterdams, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 7. júní 1655, varð attestatus 4. maí 1657. Var heima hjá föður sínum næsta ár, fór utan aftur 1658, var um hríð í Noregi, komst til Kh. í júlí 1659, komst skömmu síðar í þjónustu konungs við þýðingar á ísl. fornritum. Var sumarið 1662 á Íslandi í handritasöfnun.

Varð 10. júlí 1664 kamerarius “ 191 í Stafangursstifti, setti bú. á Stangarlandi í Körmt og átti þar heima síðan. Fekk lausn frá embættinu 1667 og varð þá fornfræðingur konungs, en skyldi mega búa áfram á Stangarlandi. Var á Íslandi sumarið 1671, að ráðstafa erfðaeignum sínum. Um haustið lenti hann í skipreika við Jótland, varð þá óviljandi manni að bana í Sámsey; varð af mál, og kom til hæstaréttar, en hann lagði til, að Þormóður tæki opinbera aflausn og gyldi 100 rd. sekt, og féllst konungur á það. Var 1682 kvaddur af konungi til að vera sagnaritari Noregs, með háum launum, og skyldi fá handrit sem hann vildi úr bókhlöðu konungs. Varð 1704 að nafnbót assessor í háskólaráði. Var þrekinn, en ekki hár vexti, harðeygur sem fálki, hvass í tali og snarlegur, harðlyndur, sem hann átti kyn til, en brjóstgóður smælingjum. Var talinn fjörmaður mikill á yngri árum.

Ritstörf: „De rebus gestis Færoensium“, Kh. 1695 (þýzk þýðing, Lpz. 1757; dönsk þýðing, Kh. 1770); „Orcades “, Kh. 1697 og 1715 (ensk þýðing, Wick 1866); „Series dynastarum et regum Daniæ“, Kh. 1702 og 1705; „Historia Hrolfi krakii“, Kh. 1705 og 1715; „Gronlandia antiqua“, Kh. 1706; „Trifolium historicum“, Kh. 1707; „Historia rerum Norvegicarum“, 4 bindi, Kh. 1711; „Torfæana“, Kh. 1777. Varð hann mjög frægur af þessum ritum sínum, fylgdi þar ísl. frásögnum. Er hugmyndaflugið mikið og dómgreindin ekki lakari en búast mátti við af rithöfundum þeirra tíma. Við prentun ritanna naut hann mjög aðstoðar Árna Magnússonar og í síðasta bindi Noregssögunnar Þorleifs magisters Halldórssonar, enda var hann sjúkur, allmörg hin síðustu ár ævinnar. Handrit hans komust í hendur Árna Magnússonar.

Kona 1 (9. júlí 1665): Anna Hansdóttir, norsk ekkja auðug (d. 19. dec. 1695).

Kona 2 (14. mars 1709): Samnefnd bústýra hans; bl. með báðum (Saga Ísl. V; Æviágr. í „Minerva“ 1786–S8 eftir Jón Eiríksson; Bricka; AM. Brevveksling med Torfæus; HÞ.: sjá og bréfabækur hans í AM. 282–5, fol.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.