Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorlákur Þórhallsson, helgi

(1133–23. dec. 1193)

Byskup í Skálholti 1178–-93.

Foreldrar: Þórhallur Þorláksson að Hlíðarenda í Fljótshlíð og Halla Steinadóttir, Steinasonar, Lærði í Odda hjá Eyjólfi presti Sæmundssyni og tók prestvígslu, var síðan 6 ár (um 1154–60) í Frakklandi og Englandi. Eftir það var hann fyrst með frændum sínum um 2 ár eða svo, en því næst 6 ár (um 1162–8) í Kirkjubæ, þá príor og síðan ábóti í Þykkvabæ í Veri 7 vetur (1168–75), var síðan kosinn af Klængi byskupi Þorsteinssyni til eftirmanns honum, fór utan 1177, vígðist 1. júlí 1178 af Eysteini erkibyskupi. Gerðist hinn skörulegasti byskup, reyndi mjög að efla kirkjuvaldið og átti harða rimmu við Jón Loptsson í Odda, sem átt hafði börn við systur hans. Hann var brátt eftir lát sitt talinn heilagur maður, heilagur dómur hans upp tekinn 1198, og á hann 2 messudaga á ári; helgi hans var mikil hérlendis og nokkur um næstu lönd, en aldrei var hann tekinn í tölu heilagra manna, né nokkurir honum samlendir, þótt heilagir hafi verið kallaðir (Dipl. Isl.; Bps. bmf. I; Landn.; Safn 1).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.