Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorlákur Skúlason

(24. ágúst 1597–4. janúar 1656)

Byskup.

Foreldrar: Skúli (d. 1612) Einarsson á Eiríksstöðum og kona hans Steinunn Guðbrandsdóttir byskups, Þorlákssonar. Ólst upp að Hólum hjá móðurföður sínum, og nam þar skólalærdóm.

Skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 9. dec. 1616, varð baccalaureus 21. apr. 1618, kom til landsins 1619, með lofsamlegum vitnisburðum frá háskólanum, varð sama haust rektor í Hólaskóla, en sumarið 1620 sendi móðurfaðir hans hann utan, vegna morðbréfamálsins, og þann vetur (1620–1) stundaði hann enn nám í háskólanum í Kh. (varði þar þá ritgerð eina eftir Ole Worm). Kom aftur til landsins 1621 og tók af nýju við rektorsstörfum, en vígðist jafnframt 1624 kirkjuprestur að Hólum. Fór enn utan 1625, að kaupa við til dómkirkjusmíðar. Kom aftur 1626, hafði fengið 26. apr. 1625 vonarbréf fyrir Hítardal, en síra Jón Guðmundsson lézt ekki þurfa aðstoð hans fyrst um sinn. Þegar síra Arngrímur lærði færðist undan byskupskjöri eftir lát Guðbrands byskups (1627), varð Þorlákur fyrir kjöri, fór utan sama haust, fekk staðfesting konungs 8. maí 1628, vigðist 16. s.m., kom til landsins sama sumar, tók við Hólastól 2. ág. s.á. og hélt til æviloka.

Var mildur maður og óáleitinn, jafnaði allt fremur í kyrrþey en með hávaða. Fór honum þó kirkjustjórn vel úr hendi. Glaðlyndur maður og gamansamur, liðlegt latínuskáld og hafði liprar gáfur. Til er brot úr bréfabók hans í uppskrift, brot úr visitazíubók og reikningabók; allt þetta varðveitt í þjóðskjalasafni. Hann unni mjög íslenzkum fræðum, lét skrifa upp sögur (hefir sumt þess háttar einungis varðveitzt oss frá honum) og studdi Björn Jónsson að Skarðsá í árbókagerð hans. Auk bréfa hans til Ole Worms, er varðveitt í handriti ritgerð um eðlislýsing landsins á latínu „Responsio subitanea“), samin 1647. Uppdrættir frá honum eru í hinu fræga landfræðaverki Orteliusar. Þýðingar hans á guðsorðabókum eru pr. að Hólum: „Hugvekjur“ Joh. Gerhards (1630, komu út oft síðar); „Dagleg iðkun guðrækninnar“ eftir sama (1652) og „Enchiridion“ (1656); „Nokkurar huggunargreinir“ úr dönsku (1635 og síðar); „Bænadagapredikanir 3 af Michas spámanni“ (1641) eru nú ókunnar; „Einn lítll sermon um helvíti“ eftir Rasmus Winter (1641 og síðar); „Sá gyllini skriptargangur“ eftir Joh. Förster (1641 og síðar). Aðalverk hans í þessu efni var prentun biblíunnar (1637–44), sem við hann er kennd, með hliðsjón af danskri biblíuþýðingu (Resensbiblíu).

Davíðssálmar voru pr. þaðan sér 1647 (og aftur 1675). Eftir hann er í handriti (ÍB. 211, 4to.) „Bænadagspredikun 1644“ og „Bænir“ í Lbs. 398, 4to.

Kona (kaupmáli 31. júlí 1630): Kristín (f. 27. febr. 1610, d. 10. júní 1694) Gísladóttir lögmanns, Hákonarsonar, og er um hana sagt, að henni hafi allir hlutir verið vel gefnir.

Börn þeirra: Gísli byskup að Hólum, Þórður byskup í Skálholti, Guðbrandur sýslumaður í Vallholti, síra Skúli á Grenjaðarstöðum, Jón sýslumaður í Berunesi, Elín átti Þorstein sýslumann Þorleifsson á Víðivöllum; hana gerði hann jafna til arfs við bræður sína og fekk henni kennslukonu frá Englandi. Henni eignar Halldór konrektor Hjálmarsson hina Ísaumuðu mynd, sem nú er í Þjóðminjasafni af föður hennar, en að jafnaði er hún ella eignuð Halldóru Guðbrandsdóttur byskups, Þorlákssonar.

Eftir honum hafa sumir niðja hans nefnt sig Thorlacius (JH. Bps. Il; PEÓI. Mm.; Saga Ísl. VemIi)


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.