Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorlákur Magnússon

(1737–28. maí 1822)

Prestur.

Foreldrar: Síra Magnús Pétursson á Höskuldsstöðum og kona hans Ásgerður Pálsdóttir prests að Upsum, Bjarnasonar. Tekinn í Hólaskóla 1753, varð stúdent 20. maí 1760. Varð djákn á Þingeyrum 1763, vígðist 1. nóv. 1767 aðstoðarprestur síra Halldórs Hallssonar á Breiðabólstað í Vesturhópi, fekk Ríp 1769 og var þar veturinn 1769–"70, en sagði því prestakalli af sér 16. febr. 1770 og hugðist að verða aftur aðstoðarprestur síra Halldórs, að þrábeiðni hans, en þá um veturinn andaðist síra Halldór. Fekk síra Þorlákur þá Þingeyraklaustursprestakall, sagði þar af sér prestskap 18. júlí 1782, vegna sjónleysis. Bjó á eignarjörð sinni, Leysingjastöðum, síðan að Geitaskarði, andaðist að Lækjamóti í Víðidal.

Fekk jafnan mjög gott orð.

Kona (1768): Kristín (d. 1802, liðlega 80 ára) Ólafsdóttir að Búrfelli á Ásum, Kárssonar; þau bl. Sumir eigna síra Þorláki laundætur 2, eftir að hann var orðinn ekkjumaður: Sæunni, er kölluð var Jónsdóttir, og Hólmfríði, er kennd var Magnúsi Tómassyni frá Hjallalandi og átti Pétur Skúlason á Þorleiksstöðum í Blönduhlíð (HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.