Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorlákur Hallgrímsson

(7. sept. 1775 [1773, Vita] – 14. nóv. 1862)

Prestur,

Foreldrar: Hallgrímur Einarsson að Ósi í Hörgárdal og kona hans Sigríður Þorláksdóttir prests og skálds að Ósi, Þórarinssonar.

Tekinn í Hólaskóla 1789, en gekk treglega, veik þaðan eftir 5 vetur, var 2 vetur utanskóla hjá síra Einari Árnasyni í Sauðanes, tekinn aftur í Hólaskóla 1796, varð stúdent 28. maí 1800, og er ekki mjög látið af gáfum hans í stúdentsvottorðinu, en sagt, að haldið hafi hann ágæta prófræðu. Var næsta ár í Héraðsdal, að Reykjarhóli og Reynistað, fekk Svalbarð 1805, vígðist 15. apr. s.á., fekk Goðdali 12. júní 1817, kom þangað ekki til veru, fekk Skinnastaði 1818, í skiptum við síra Einar Thorlacius (staðfesting 24. apr. 1819), fekk Presthóla 30. apr. 1826, missti þar prestskap fyrir óskírlífisbrot með vinnukonu sinni (Sigríði Oddadóttur), bjó síðan um hríð að Blikalóni, en var síðan hjá dætrum sínum og andaðist á Fossvöllum. Hann sókti nokkurum sinnum um uppreisn, en fekk ekki, en að beiðni hans var honum leyft í maí 1851 að bera prestabúning.

Var uppgangsmaður framan af, en gekk miður síðar, enda gerðist hann þá drykkfelldur mjög.

Kona (4. okt. 1800): Guðrún Ásmundsdóttir á Silfrastöðum, Jónssonar.

Börn þeirra: Sigríður átti síra Bergvin Þorbergsson á Skeggjastöðum, Kristín átti Jón Jónsson að Blikalóni, Ingibjörg átti Kristján Frímann Sigurðsson á Fossvöllum, Guðbrandur vel gefinn maður, en heilsuveill, bjó víða eystra, t. d. á Þrándarstöðum í Eiðaþinghá (Vitæ ord.; HÞ.: SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.