Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorlákur Guðmundsson

(um 1711– í júní 1773)

Prestur, klausturhaldari o. fl.

Foreldrar: Síra Guðmundur Vernharðsson í Selárdal og kona hans Margrét Arngrímsdóttir, Jónssonar í Sælingsdalstungu, Arngrímssonar prests lærða. Tekinn í Skálholtsskóla 1727, varð stúdent 1731. Fekk innheimtu byskupstíunda í Barðastrandarsýslu 27. mars 1733, vígðist 6. maí 1735 aðstoðarprestur föður síns, fekk prestakallið eftir hann 1738. Fekk uppreisn 4. júlí 1742 fyrir of bráða barneign með konu sinni, en hafði fengið leyfi amtmanns áður til að halda prestakallinu, meðan beðið væri eftir úrskurði þessum eða uppreisnarbréfi frá konungi. Dæmdur frá kjóli og kalli 27.–28. mars 1749 fyrir afglöp við sakramenti (drukkinn), fluttist þá um vorið að Rauðsdal, var settur sýslumaður í Ísafjarðarsýslu 1754–6, hefir þá haft bú í Gufudal (en þó helzt haft dvöl í Holti í Önundarfirði). Hélt Þykkvabæjarklaustur 1759–62, Vestmannaeyjasýslu (settur) 1760–6, bjó þau ár í Teigi í Fljótshlíð og enn 1769, varð lögsagnari Brynjólfs sýslumanns Sigurðssonar í Árneþingi 1771, andaðist að Hrepphólum. Í skýrslum Harboes fær hann sæmilegan vitnisburð að þekkingu, þótt hann sé talinn þar heldur óróagjarn, og verið hefir hann vel gefinn maður, að því er ósjálfrátt mátti kalla.

Kona 1 (20. nóv. 1740). Guðrún yngri (f. um 1705) Tómasdóttir í Krossadal í Tálknafirði, Jónssonar að Sellátrum, Tómassonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Hólmfríður f. k. síra Steindórs Gíslasonar í Hvammi í Norðurárdal, Þorbjörg átti Jón Ólafsson að Heylæk, síra Jón skáld að Bægisá, síra Páll á Þingvöllum.

Kona 2 (1771): Þóra Jónsdóttir (vinnukona hans). Dóttir þeirra: Rannveig átti Þórð Nikulásson í Svínhaga. Þóra ekkja Þorláks átti síðar Jón Björnsson á Sámsstöðum (BB. Sýsl.; HÞ.. SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.