Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorleifur Grímsson

(– – 1558)

Sýslumaður á Möðruvöllum.

Foreldrar: Grímur sýslumaður sst. Pálsson og kona hans Helga Narfadóttir á Narfeyri, Þorvaldssonar. Hélt Vaðlaþing um og eftir 1550. Var einn með auðugustu mönnum.

Kona 1 (um 1515). Sigríður Sturludóttir, Magnússonar. Dætur þeirra: Halldóra átti Ara lögmann Jónsson, Þorbjörg átti Orm lögmann Sturluson.

Kona 2 (1553). Solveig Hallsdóttir; höfðu þau Þorleifur búið lengi saman áður og átt öll börn sín, en fjórmenningsmein voru á hjúskap þeirra: risu af þessu erfðadeilur miklar.

Börn þeirra: Grímur sýslumaður að Hólum í Eyjafirði, Þuríður átti fyrr Árna Pétursson í Djúpadal, síðar Eirík Snjólfsson, Sigríður átti Eggert lögmann Hannesson, Hallotta átti Brand Ormsson á Silfrastöðum. Þorleifi eru og eignuð í ættbókum mörg launbörn með ýmsum konum.

Þessi eru víst réttilega eignuð honum: Þorgerður átti Sigurð klausturhaldara Jónsson, Þórður að Brekkum í Skagafirði, Guðrún átti Ólaf nokkurn (Dipl. Isl.; BB. Sýsl.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.