Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorleifur Björnsson

(– – um 1486)

Hirðstjóri að Reykhólum.

Foreldrar: Björn hirðstjóri ríki Þorleifsson og kona hans Ólöf Loptsdóttir ríka, Guttormssonar. Komst brátt til mikils frama. Hafði ungur staðarforráð í Hruna (til 1462). Var handtekinn af Englendingum í Rifi 1467, er faðir hans var veginn, og leystur út miklu fé.

Fekk hirðstjórn 1481, um 3 ár, en hélt ýmsar sýslur. Stórbrotinn maður og yfirgangssamur.

Átti deilur við Lopt Ormsson, frænda sinn, niðja Guðmundar ríka Arasonar o.fl. Stóð fyrir Oddgeirshólareið 1473. Hafði páfaleyfi til hjúskapar við Ingveldi Helgadóttur lögmanns, Guðnasonar, vegna fjórmenningsmeina, og hafði átt við henni börn áður, en Skálholtsbyskup vildi ekki leyfa hjúskapinn; urðu því erfðadeilur eftir þau.

Börn þeirra: Björn að Reykhólum, Helga átti Eyjólf mókoll Gíslason í Haga, Jarþrúður átti Guðmund á Felli í Kollafirði Andrésson, Guðný átti Grím lögmann Jónsson á Ökrum, Kristín átti Eirík í Álptanesi Halldórsson (ábóta, Ormssonar); Þorsteinn er enn talinn (Dipl. Ísl; BB. Sýsl.; PEÓl. Mm.; Saga Ísl. IV.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.