Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorleifur Björnsson

(16. öld)

Prestur.

Foreldrar: Björn að Reykhólum Þorleifsson (hirðstjóra) og kona hans Ingibjörg Pálsdóttir. Er orðinn prestur 1526, bjó að Reykhólum, hélt síðan Stað á Reykjanesi, en þó nokkuð skrykkjótt, með því að hann var undarlegur, oft svo sem rænulaus, og asmæltur, en manna hagastur talinn. 1546 fær hann aflausn af byskupi fyrir „óhæfilegt kvennafar og töfra“ (lækninga- eða galdrablöð með hendi hans eru í AM.), virðist síðar hafa misst prestskap, en 1559 fær byskup honum sama prestakall aftur. Í bréfi 8. apr. 1578 segir hann, að byskup hafi tekið af sér prestakallið. Er enn á lífi 1581.

Kona (kaupmáli 1. jan. 1543, hjúskaparleyfi 1. júlí 1564): Ragnhildur Jónsdóttir í Kálfanesi, Þorbjarnarsonar.

Börn þeirra: Ólöf átti Ara Ólafsson, Guðmundssonar, Jón, Guðrún, Páll, Ingibjörg átti Magnús Sveinsson í Berufirði. Launbörn síra Þorleifs talin: Síra Greipur á Stað á Snæfjallaströnd, Herdís; þau eru ættleidd (með Páli og Guðrúnu) 12. sept. 1557, eins og öll væru alsystkin, en móðir þeirra er þó sumstaðar talin Jórunn Jónsdóttir frá Sæbóli. Er óvíst um móðerni sumra þessara barna síra Þorleifs, og gæti eins verið, að Herdís hafi verið dóttir hans og Ragnhildar, en Þorgerður hét móðir síra Greips (Dipl. Isl.; PEÓI. Mm.; Saga Ísl. IV; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.