Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorleifur Arason (Adeldahl eða Aðaldal)

(um 1749–?)

Hermaður, stúdent.

Foreldrar: Síra Ari Þorleifsson að Tjörn í Svarfaðardal og f. k. hans Helga Þórðardóttir að Yzta Felli í Kinn, Magnússonar. Tekinn í Hólaskóla 1763, varð stúdent 11. maí 1769, talinn í vitnisburðinum þá vera gæddur fjölhæfum námsgáfum. Varð djákn á Grenjaðarstöðum, fór utan 1771, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 24. dec, s.á., varð baccalaureus 6. ág. 1774.

Á þeim árum skrifaði hann upp mörg handrit handa P.F. Suhm.

Nám hans fór út um þúfur, með því að hann lagðist í svall.

Varð hann þá undirforingi í lífverði konungs, en vegna hirðuleysis missti hann það starf og varð (1777) óbreyttur liðsmaður. Hannes byskup Finnsson segir (í ættartölubók sinni), að hann hafi verið flugskarpur, en lauslyndur og andazt í vesöld.

Var hagmæltur, sjá Lbs. (HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.