Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorkell Ólafsson

(1. ág. 1738–29. jan. 1820)

Prestur, officialis.

Foreldrar: Ólafur byskup Gíslason og kona hans Margrét Jakobsdóttir prests að Kálfafelli, Bjarnasonar. Tekinn í Skálholtsskóla 1751, stúdent 26. apr. 1757, varð s.á. djákn að Þykkvabæjarklaustri, en þar hélzt hann ekki við, því að sóknin var í eyði eftir Kötlugosið; var hann þá næsta vetur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, en varð skrifari Finns byskups Jónssonar 1758, fór utan 1761, skráður í stúdentatölu 19. dec. s. á., tók guðfræðapróf 28. mars 1764, með 3. einkunn, kom s. á. aftur til landsins og varð enn skrifari Finns byskups, fekk Hvalsnesþing 9. sept. 1766, vígðist 6. okt. s.á., átti heima í Sandgerði, fekk 26. maí 1769 Seltjarnarnesþing, en nýtti sér ekki (að tilmælum stiftamtmann), varð kirkjuprestur að Hólum 20. dec. s. á., fluttist þangað 1770, fekk lausn frá prestskap 7. sept. 1816, en gegndi samt prestakallinu fram á sumar 1817. Var prófastur í Hegranesþingi frá 12. nóv. 1785–1803, officialis 1787 og gegndi þá byskupsembætti nyrðra 2 ár og aftur frá 1798–1801, er Hólabyskupsdæmi var lagt niður. Hann átti og sæti í skólanefndinni 1781. Finnur byskup o. fl. láta vel af honum, telja hann vel að sér. Söngmaður var hann frábær og valmenni, átti heldur erfiðan fjárhag. Pr. eru eftir hann Útfm. Jóns byskups Teitssonar, Hól. 1782, og Sigurðar byskups Stefánssonar („Verðung“), Hól. 1799. Ræður eru eftir hann í Lbs.

Kona (24. sept. 1774): Ingigerður (d. af barnsförum 14. okt. 1775) Sveinsdóttir lögmanns, Sölvasonar.

Sonur þeirra: Sölvi í Hofstaðaþingum (Útfm., Viðey 1821; HÞ. Guðfr.; HÞ.; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.