Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorkell Guðnason

(3. nóv. 1754 [1755, Vita] – 26. okt. 1829)

Prestur.

Foreldrar: Guðni Hallsson í Húsavík í Steingrímsfirði og kona hans Steinunn Guðmundsdóttir á Finnbogastöðum, Jónssonar að Dröngum („Dranga-Jóns“).

Ólst upp með móðurbróður sínum, Jóni að Ármúla. Lærði 2 vetur hjá síra Jóni Sigurðssyni (síðast í Holti í Önundarfirði), tekinn í Skálholtsskóla 1779, átti þar barn 1780, fekk uppreisn 22. júní 1781, varð stúdent 5. maí 1782, með góðum vitnisburði, kenndi síðan á Vatneyri. Vígðist 5. okt. 1783 aðstoðarprestur síra Eyjólfs Sturlusonar að Brjánslæk og gegndi síðan því prestakalli eftir lát hans, varð aðstoðarprestur síra Vernharðs Guðmundssonar í Otradal 30. sept. 1784, fekk Flatey 15. apr. 1788, bjó að Múla á Skálmarnesi, fekk Stað í Hrútafirði 10. dec. 1808, fluttist þangað vorið 1809 og hélt til æviloka. Hannes byskup Finnsson hælir mjög kennimannshæfileikum hans í vísitazíuskýrslu 31. dec. 1790.

Var blóðtökumaður góður og bókbindari, með minnstu mönnum að vexti og óásjálegur, en snar, stilltur vel, og gestrisinn.

Kona (1784): Guðbjörg (d. 8. sept. 1829, 75 ára) Vernharðsdóttir prests í Otradal, Guðmundssonar.

Sonur þeirra: Síra Vernharður í Reykholti. Barn það, er hann átti í skóla (með Guðrúnu „Jakobsdóttur frá Skálanesi í Vopnafirði, Sigurðssonar, en hún átti síðar Finnboga Björnsson í Reykjavík), hét Sigurður (Vitæ ord.; HÞ.; Blanda III; SGrBf.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.