Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorkell Arngrímsson

(1629–5. dec. 1677)

Prestur, læknir.

Foreldrar: Síra Arngrímur lærði Jónsson á Mel og s. k. hans Sigríður Bjarnadóttir prests á „ Grenjaðarstöðum, Gamalíelssonar. Lærði í Hólaskóla, fór utan 1647, skráður í stúdentatölu í háskólanum í Kh. 16. dec. s.á., kom til landsins 1649, heyrari í Hólaskóla 1649–51, fór aftur til Kh. 1651.

Jafnframt guðfræði lagði hann stund á náttúrufræði og lækningar. Flutti erindi tvö latnesk (disputatíur) um eðlisfræði 1652 í Kh. Var að námi í Leyden 1652. Dvaldist í Noregi 1654–6, á heimili Jörgens Bjelkes, er þar hafði þá lén mikil, og lagði stund á lækningar og vafalaust einnig námarannsóknir, enda fekk hann styrk frá konungi 1655 til málmrannsókna á Íslandi (100 rd. árlega), og tók við þeirri greiðslu í Kh. 30. júní 1656. Hefir hann þá líkl. farið til Íslands, verið þar árlangt eða svo í þessum störfum. Fekk Garða á Álptanesi 1658, hefir vígzt s. á., tók við staðnum 18. dec. s. á., og hélt til æviloka. Komst þar 1664 í deilur við Símon Árnason að Dysjum og síðan fáeina sóknarmenn, er slógust til fylgis við Símon; munu þeir jafnvel hafa afsagt hann, en þetta eyddist, líkl. mest við það, að Símon fluttist í Örfirisey. Fekk vonarbréf fyrir Breiðabólstað í Fljótshlíð 7. maí 1664 og aftur 21. maí 1672, þótt ekki tæki hann það prestakall. Hann var vel gefinn og prýðilega að sér, sem þeir frændur, skáldmæltur bæði á íslenzku og latínu (sjá Lbs.), talinn ágætur læknir, hefir samið lækningabók og haldið lækningadagbók (sjá Lbs.). Þýddi Tómas af Kempis: Eftirbreytni Krists, pr. Hól. 1676; sá um pr. Davíðssálma síra Jóns Þorsteinssonar, Hól. 1662. Hafði bréfagerðir við Ole Worm og sendi honum greinir um eðli Íslands (sumt pr. í „Acta medica“ og við Ole Borch. Drykkfelldur þókti hann nokkuð. Um hann eru nokkurar sagnir.

Kona (1660): Margrét (d. í apríl 1706, nál. sjötugu) Þorsteinsdóttir prests í Holti undir Eyjafjöllum, Jónssonar.

Börn þeirra, sem upp komust: Þórður rektor og læknir, Jón byskup, Arngrímur rektor í Nakskov, Guðrún átti síra Árna Þorvarðsson á Þingvöllum (Saga Ísl. V; Lækn.; Þorv. Th. Landfrs.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.