Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940

Þorgrímur Sigurðsson

(um 1706–í nóv. 1785)

Sýslumaður.

Foreldrar: Sigurður lögsagnari Sigurðsson að Brjánslæk og kona hans Guðrún Nikulásdóttir prests í Flatey, Guðmundssonar. Lærði í Skálholtsskóla, varð stúdent 1730, dvaldist síðan með skyldmennum sínum, einkum bróður sínum, Guðmundi sýslumanni að Ingjaldshóli. Varð sýslumaður í Mýrasýslu 1740 (fekk veiting fyrir henni 1741), sagði henni af sér 20. dec. 1776. Var dugandi maður og vel efnum búinn, enda talinn harðdrægur og af sumum grunaður um græsku. Var framan af til heimilis í Hítardal, bjó að Síðumúla 1 ár (1744–5), en síðan til 1777 í Hjarðarholti, andaðist í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

Kona (1742): Ragnhildur (d. 31. okt. 1786) Hannesdóttir prests í Reykholti, Halldórssonar. Synir þeirra, sem upp komust (þeir nefndu sig Thorgrímsen og eins niðjar þeirra): Síra Guðmundur á Lambastöðum, síra Björn að Setbergi, Þorkell lögsagnari föður síns, Halldór lögsagnari föður síns (BB. Sýsl.; HÞ.).


Íslenzkar æviskrár frá landnámstímum til ársloka 1940
Höfundar Páll Eggert Ólason 1883-1949, Ólafur Þ. Kristjánsson 1903-1981, Jón Guðnason 1889-1975, Sigurður Líndal 1931
Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, I: 1948, II: 1949, III: 1950, IV: 1951, V: 1952, VI: 1976.

Unnið úr ljóslesnum texta stafrænna endurgerða bókanna.